föstudagur, 9. ágúst 2013

Góðan dag Prjónablogg!

Komið sæl kæru vinir!

Það blundar lítil handavinnukona í mér og þess vegna langar mig að halda úti bloggsíðu þar sem ég mun birta myndir af núverandi, þáverandi og verðandi prjón- eða heklverkum sem ég dunda mér við að gera. Ég reyni sem minnst að styðjast við uppskriftir en nota þær oft til hliðsjónar af stærðum eða nota mynstur sem mér þykja falleg og geri að mínu á einn eða annan hátt. Þar sem einnig blundar örlítill föndrari í mér þá mun örugglega læðast inn ýmisleg föndurverk sem ég tek fyrir - svona þegar ég nenni :)

Innblástur minn fæ ég úr öllum áttum. Ég nota mikið Pinterest.com þar sem ég fæ allra mest af nýjum og skemmtilegum hugmyndum. Ég sæki líka innblástur í gömul prjónablöð sem ég kemst í bæði inni á heimasíðu Ístex og svo líka hjá tengdamóður minni og móður hennar sem er mikil prjónakona, hún Inga Stína á Eyrarbakka. Svo má ekki gleyma hinum mikla fjársjóði, Íslensku Sjónabókinni sem gefin var út árið 2009 af Listaháskóla Íslands í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands. Þar kennir ýmissa grasa og er virkilega gaman að glugga í hana, enda 700 og eitthvað blaðsíður.

Ég hef stundum verið beðin um að prjóna aftur sömu flíkina, þ.e. einhverjum langar að eignast eins peysur og ég hef gert mér en ég reyni að lágmarka það nánast alveg. Mér þykir ekki skemmtilegt að prjóna sömu flíkina aftur, vil bara leyfa sköpunargleðinni að ráða för og gera eitthvað spennandi sem ég hef ástríðu fyrir.

Hlakka til að byrja! Er með margt á prjónunum þessa dagana, til dæmis eina lopapeysu, ungbarnahúfu, lopagalla, ljósakrónu og margt fleira sem ég mun birta hér um leið og það klárast. Fyrst mun ég byrja á ýmsum stykkjum sem ég er núþegar búin með og hef verið að gera síðast liðið árið. Ég er líka með margt í kollinum sem bíður þess að núverandi verkefni klárist svo ég geti hafist handa og byrjað á þeim, mun líklega birta ítarlega sýningu á þeim í bígerð :)

Læt fylgja með smá brota brot til að byrja með..

Hér er gullið mitt hún Þórunn Erla og skartar hún húfu sem ég heklaði upphaflega á dóttir vinkonu minnar. Uppskrift af þessari húfu má finna hér

Svo má ég til með að sýna ykkur föndrarann í mér. Breytti gömlum og ljótum götuskóm til hins betra fyrir u.þ.b. ári síðan. Notaði Fabric Pens tússliti sem ég fékk í A4 Selfossi (fyrra sumar). Hugmyndina fékk ég á pinterest. 

Já það er sko margt sem ég á eftir að koma með hingað inn svo endilega fylgstu með!

- Steinunn Birna -

Engin ummæli:

Skrifa ummæli