laugardagur, 26. október 2013

Óveðurspeysan

Nú í sumar var efnt til hönnunarsamkeppni á vegum ,,Gengið til fjár" í samvinnu við Ístex og Landssamtök sauðfjárbænda. Samkeppnin snerist um að heiðra íslensku sauðkindina sem hefur þurft að þola ótrúleg óveður.  Prjóna átti lopapeysur í óveðursstíl og úr íslenskri ull.

Hér má sjá auglýsingu með nánari upplýsingum um samkeppnina. 

Skilafresturinn var til 1. október síðast liðinn, en í dag verða tilkynnt úrslit og hvaða þrjár peysur hafa unnið til verðlauna. Verðlaunin eru ekki af verri endandum en fyrir 1. sæti er 100.000 kr og flug & gisting fyrir tvo innanlands. 2. sætið fær 70.000 kr og værðarvoð frá Ístex, og 3. sætið fær 30.000 kr og einnig værðarvoð. 

Kl. 14:30 í dag verða svo sýndar allar peysurnar sem sendar voru inn í keppnina við Handprjónasambandið við Skólavörðustíg. Mikið vildi ég að ég kæmist en verð því miður að vinna. 

Ég lét mitt að sjálfsögðu ekki eftir liggja og sendi inn peysu. Peysan fékk vinnuheitið Winter Wonderland þegar ég var að byrja á henni, en breytti því svo í Bylur þegar leið á. Ég hafði séð þessa auglýsingu einhvern tíman í júní og var alveg staðráðin í að senda inn peysu. Það var svo ekki fyrr en seint í september sem að ég rankaði við mér og hóf að prjóna peysuna. Hún varð frekar lítil, eða eins og á 2-3 ára, en hún var ekkert endilega hugsuð sem barnapeysa í byrjun. 

Ég prjónaði peysuna úr einföldum plötulopa og einbandi. 
Mynstrið er gert úr allskonar frostrósum. 

Ég valdi þennan bláa lit því mér fannst hann segja: Íslenskt skammdegi og snjókoma. 


Ég er mjög spennt að sjá hvernig vinningspeysurnar líta út, en eitt er víst að mín peysa er ekki ein af þeim. Peysan mín er ef til vill of krúttleg til þess að flokkast sem óveður ;)

Eigið góða helgi kæru vinir og gleðilegan fyrsta vetrar dag!
- Steinunn Birna - 

sunnudagur, 13. október 2013

Elsku amma Þóra

Ég er svo óendanlega heppin með mínar ömmur, en því miður kvaddi amma Þóra mín nú í sumar, 90 ára að aldri.  Ég ber mikinn söknuð til hennar og trúi varla enn að hún sé ekki lengur hér á meðal okkar. Með tárin í augunum skrifa ég þessa minningu um elsku ömmu og gef henni næstu orð: 



Amma Þóra var örvhent eins og ég. Hún lærði aldrei að prjóna vegna þess að handavinnukennarinn hennar hafði ekki kennsluhæfni til þess að kenna örvhentu barni að prjóna. Í staðinn heklaði amma, og það var ekki lítið. Ömmu var margt til lista lagt og höfðu þær systurnar miklar sköpunargáfur. Það voru heklaðar alls kyns dúllur, dúkar, dúkkuföt, jólaskraut, páskaskraut og allavegana hlutir. Amma mín saumaði líka mjög mikið, allt fram á síðasta dag. Við eigum til ótal stykki heima sem amma hefur saumað í gegnum tíðina, svuntur, handklæði, dúkkuföt, ungbarnasmekki, kjóla og margt fleira. Amma bjó yfir mikilli sköpunargleði og hafði einstaka unun af því að gefa okkur barnabörnunum og barnabarnabörnunum afurðirnar sínar. 


Minn áhugi á prjóni og hekli vaknaði um 18 ára aldur. Þá fyrst prjónaði ég mér eyrnaband úr ljósbláu mohair garni. Mig langaði svo hafa blóm á eyrnabandinu svo ég bað ömmu um að hekla það fyrir mig. Án þess að vita nákvæmlega hvernig blóm ég var að meina heklaði amma nákvæmlega blómið sem mig langaði í. Mér þykir afskaplega vænt um það í dag. 



Það var fyrir örfáum árum síðan, þegar ég var í heimsókn hjá ömmu eitt kvöldið að hún vildi endilega losa sig við eitthvað af gömlum dúllum og dúkum sem hún átti í kassa inni hjá sér. Fyrir mér eru þetta gull og gersemar, sérstaklega afþví þetta er ekki bara eftir ömmu heldur var sumt eftir systur hennar sem allar eru látnar. Einn dúkinn taldi hún meira að segja vera eftir Sigurborgu móður hennar. Hún sagði við mig ,,taktu bara þetta allt saman, það vill þetta enginn". Ég þáði þessa gjöf með miklu þakklæti og lofaði að deila henni með systrum mínum, sem ég og gerði. 



Amma var dugleg að hekla eftir. Hún keypti sér oft dúka og dúll sem hún svo gerði eftir.




Það er auðþekkjanlegt það sem amma hefur heklað, því hún gekk aldrei frá endunum.


Rétt áður en amma lést gaf hún Þórunni Erlu stelpunni minni þrjá smekki sem hún hafði saumað. Ég gaf Henning Darra systursyni mínum einn þeirra (hann fæddist nokkrum vikum eftir andlát ömmu), leyfi Þórunni Erlu að nota einn en sá þriðji og jafnframt sá fallegasti verður vel geymdur og fær ekki að verða notaður, ekki strax að minnsta kosti. 



Nú þegar elsku amma er farin öðlast gjafirnar hennar enn meira gildi. Þetta er ekki eitthvað sem við beint erfðum frá henni, heldur gaf hún sjálf okkur þetta. Mér líður alltaf betur með að vita það að amma vildi gefa okkur þetta.

Núna er eitt hornið í bílskúrnum hjá mömmu og pabba undirtekið af föndurdótinu hennar ömmu, bíður þar eftir því að við skiptum því á milli afkomendanna. Það er hálf súrrealískt að fara í gegnum þetta vitandi það að amma muni ekki klára neitt af þessu og að hún muni ekki gera fleiri jólakarla hangandi á eldhússleif, eins og hún hefur gert í eflaust tuga tali. 

Elsku amma, þakka þér fyrir að hafa kennt okkur þína iðju. Við erum þér ævinlega þakklát fyrir allt. Þú kenndir okkur ekki bara um handíðir, heldur um lífið sjálft. Hversu gott það er.
Takk elsku amma.


Amma Þóra með Þórunni Erlu nýfædda

Prjónað í beinni

Það verður gaman að fylgjast með norska ríkissjónvarpinu NRK föstudaginn 1. nóvember næstkomandi. Þá verður prjónuð peysa í beinni útsetningu. Fylgst verður með verkun ullarinnar allt frá því að hún er rýjuð af kindinni, kembd og svo loks spunnið band. Markmiðið er að bæta tímamet á heimsmælikvarða, en metið er 4 klst og 51 mín. og var það gert í Ástralíu.

Sjónvarpsefni af þessu tagi er nýtt á nálinni hjá NRK. Það hefur verið sýnt beint frá ýmsum atburðum, eins og frá snekkju einni þar sem allan sólarhringinn var sýnt beint frá snekkjunni, þó ekkert væri í raun sérstakt í gangi. Þetta er mótsvar við sjónvarpsefni nútímans þar sem allt snýst um að fanga athygli áhorfandans á örfáum sekúndum og með skírskotun í fastfood/slowfood umræðuna kallast þetta slowTV. 

Hér má sjá link inn á umfjöllun um þetta á heimasíðu NRK

þriðjudagur, 1. október 2013

Tuskuleg

Mér finnst gaman að eiga prjónaða hluti með mismunandi notagildi. Hvort sem það eru púðar, mottur eða jú tuskur. Þegar tuskur eru prjónaðar eða heklaðar er langbest að nota bómullargarn vegna þess að það heldur sér vel og má þvo almennilega í þvottavél. 

Ég ætlaði mér að vera rosalega dugleg að hekla slefsmekki handa Þórunni Erlu þegar hún fæddist og keypti því nokkrar dokkur af bómullargarni í Söstrene Grene. Það varð nú eitthvað lítið úr smekkjagerðinni svo ég henti mér útí  tuskurnar í staðinn. Það er hægt að leika sér svo endalaust að gera tuskur og ég er rétt að byrja! 


Gula, bleika og græna tuskan er prjónuð með garðaprjóni. Byrjaði á að nota gulan og bleikan og gerði langan renning. Tók svo upp lykkjurnar á annarri hliðinni og bætti grænum þar við. Sú bláa er prjónuð með klukkuprjóni.

Hér er ágætis kennslumyndband sem sýnir hvernig klukkuprjón er prjónað, svona fyrir þá sem ekki kunna eða þurfa að rifja upp :)




Tuskur má ekki síður hekla ef vill, smá innblástur:





Happy knitting!
- Steinunn Birna -