föstudagur, 6. desember 2013

Gróft hálsmen

Ég fann í Litir og Föndur á Skólavörðustíg fyrir jólin í fyrra rosalega skemmtilegt gróft teygju garn sem ég bara varð að eignast. Heklaði úr því eina jólagjöf í fyrra en á því miður ekki mynd af henni en það var svona stór dúlla í anda þessara hér: 



En nú hef ég loks gert eitthvað meira úr garninu, úr varð hálsmen:






Uppskriftin er afar einföld: 

Ég notaði prjóna nr 15, heklunál nr 7 (minnir mig, má alveg vera stærri) og gróft teygjugarn. 

Fitja upp á 13-14 lykkjur og fyrsta umferðin er þannig að allar lykkjurnar eru felldar af. Svo heklaði ég nógu margar loftlykkjur og tengdi saman. Gangið frá endum með því að vefja þeim inn þar sem þeir sjást ekki og jafnvel sauma með svörtum tvinna til að tryggja að hann fari ekkert á flakk :)


Megið eiga góða helgi í kuldanum!
- Steinunn Birna -

fimmtudagur, 28. nóvember 2013

Henning Darri gullmoli

Óvenju dugleg að blogga núna.. er sko að skrifa ritgerð og læra undir próf!

En hér er einn ungur herramaður sem ég elska endalaust mikið! Henning Darri systursonur minn og guðsonur. 


Hann fékk þessa dýrindis peysu frá frænku sinni núna um daginn. Uppskriftina af henni má finna í Stóru Prjónabókinni. Ég prjónaði hana úr kambgarni, en notaði svo ýmsa afganga í berustykkið. Þetta er ofur einföld peysa sem ALLIR geta prjónað! 

Ég fór reyndar ekki alveg 100% eftir uppskriftinni. Það er svo kölluð laska úrtaka á berustykkinu, þar átti að gera lykkjurnar á milli alltaf sléttar en ég gerði þær með garðaprjóni eins og öll peysan er prjónuð. 


Fékk þessar fínu trétölur í Freistingasjoppunni



En ég kann líka að hekla. Heklaði þessa krúttlegu Converse fyrir Henning Darra líka. Hér er uppskrift af skónum.

Ætli ég verði ekki að fara læra núna...
- Steinunn Birna -

þriðjudagur, 26. nóvember 2013

Jólaprjón

Eru ekki allir að fara prjóna jólapeysu fyrir þessi jólin? 

Mig langar en veit ekki með tímann.. Hér er smá Pinspiration frá elsku pinterest.





Elskum hreindýr!


Sumt er ætlað fyrir krosssaum, en það má sko alveg nota það sem prjónamynstur líka :)



- Steinunn Birna - 


Afmælisgjöfin frá langömmu

Betra er seint en aldrei! 

Hún Þórunn Erla mín varð 1 árs fyrir rúmum mánuði síðan. Hún er svo lánsöm að eiga mikla prjóna-langömmu sem býr á Eyrarbakka. Hún færir öllum ömmu- og langömmubörnunum sínum prjónaðar gjafir sem eru svo yndilega fallegar. Þórunn Erla á nú orðið allnokkrar flíkurnar eftir hana, vettlinga, húfur og peysur. Þær hafa sko komið sér vel, sérstaklega hjá dagmömmunni eða þegar við förum út að leika :)

Núna í eins árs afmælisgjöf fékk Þórunn mín þetta yndislega sett af peysu lambhúshettu og vettlingum. 


Mig minnir að mynstið í peysunni sé fengið uppúr einhverju lopablaðinu frá Ístex, en þetta er prjónað úr Smartgarni. Vettlingarnir eru sérstaklega góðir, þar sem stroffið er ekki of þröngt en nær vel upp svo þeir eru bæði mjög hlýir og eru ekki að detta af í tíma og ótíma. 


Aldeilis lukkuleg í afmælisgjöfinni frá langömmu á Eyrarbakka. 


Já, svo varð ég að fara út fyrst við vorum nú að klæða okkur í útifötin. Annað er kom ekki til greina! 

- Steinunn Birna - 


þriðjudagur, 19. nóvember 2013

Frú Föndra

Ég reyni alltaf vera rosalega skipulögð. Legg áherslu á reyni. Það tekst ekki mjög oft hjá mér en þetta kemur vonandi með aldrinum ;) Eitt tilraunaverkefnið í skipulagningu hjá mér er Frú Föndra. Það er sæt bleik mappa sem ég reyni að setja inn allar þær uppskriftir eða mynstur sem ég prenta út eða teikna upp. Hef náð að safna í smá bunka :)





Svo náði ég mér í bókina Prjónað úr íslenskri ull á bókasafni síðasta vetur og teiknaði upp uppáhalds mynstrin mín til að eiga 

sunnudagur, 17. nóvember 2013

Afgangapeysan mín góða

Komið sæl kæru prjónvinir! 

Einn daginn síðastliðið vor fékk ég algjörlega nóg af öllum spottunum og endunum sem ég átti svo allt of mikið af. Ég (og reyndar mamma líka) átti fullan höldupoka af léttlopa afgöngum. Mig langaði að sjálfsögðu að gera eitthvað skemmtilegt úr þeim og datt í hug að hekla mér peysu. 



Úr varð að ég byrjaði á því að hekla heilmargar loftlykkjur (taldi ekki hvað margar), heklaði svo stuðla fram og til baka þar til spottinn kláraðist. Þá tók næsti litur við og svo koll af kolli. Sumar dokkurnar voru þó full stórar svo ég klippti á spottann stundum án þess að klára litinn, en tók þá þráðinn upp seinna meir. 



Þegar báðar ermar og búkur voru til sameinaði ég allt saman, heklaði fram og til baka berustykkið og tók úr í hverri umferð með því að hoppa yfir eina lykkju. 




Þegar leið á peysunna fór ég að verða upppiskroppa með liti, svo ég tók smá af hvíta litnum og litaði hann. Fékk neongrænan, ljósbláan og skærgulan þar. 




Þar sem búkurinn var heklaður fram og til baka, fannst mér réttast að gera það líka með ermarnar, annars kæmi önnur áferð á þær ef ég hefði heklað þær í hring. 



Lauk svo peysunni með bleikalitnum sem setti punktinn yfir I-ið :)


Einfaldara gæti þetta ekki verið!


Kveðja
- Steinunn Birna - 

föstudagur, 1. nóvember 2013

Óveðurspeysan - Úrslit

Já nú má fara inn á heimasíðu Ístex og skoða þær peysur sem sendar voru inn í hönnunarsamkeppnina Óveðurspeysan. Margar skemmtilegar peysur af öllum stærðum og gerðum hafa verið prjónaðar fyrir þessa keppni en alveg greinilegt að margir prjónarar hafa verið með svipaðar hugmyndir, sem sagt snjókomu og sauðfé (þar á meðal ég!) :) 


Hér eru peysurnar þrjár sem unnu til verðlauna, frá vinstri: 3. sæti: Vedda. 2. sæti: 20. apríl. 1. sæti Kafla. Eins og sjá má hefur verið lögð gífurleg vinna í þessar peysur og óska ég vinningshöfum til hamingju með árangurinn. 

Hér eru svo nokkrar skemmtilegar peysur frá sýningunni sem haldin var laugardaginn síðast liðinn:


Mjög skemmtileg hönnun, gæti verið seprahestamynstur ef hún væri svört. Takið eftir hvernig ermarnar verða að vettlingum, snjallt.


Öðruvísi en mjög skemmtileg hönnun. 


Varð að hafa þessa með. Margt í gangi og brjálaðir litir! 


Einföld og smart hönnun.


Ein af fjölmörgu kindapeysunum, finnst þessi mjög flott.


Æðisleg barnapeysa. 

Hvet ykkur til að skoða hinar fjölmörgu og fallegu peysur inni á heimasíðu Ístex.

Svo vil ég minna á að kl 20:05 að íslenskum tíma í kvöld hefst bein útsending frá NRK2 þar sem prjónað verður í beinni, og reynt að slá heimsmet. Hér má sjá fyrri umfjöllun mína um þetta. Dagskrárliðurinn heitir Nasjonal strikkekveld, og svo í framhaldi af því Nasjonal strikkenat. 

Eigið frábæra helgi kæru vinir!
- Steinunn Birna - 

laugardagur, 26. október 2013

Óveðurspeysan

Nú í sumar var efnt til hönnunarsamkeppni á vegum ,,Gengið til fjár" í samvinnu við Ístex og Landssamtök sauðfjárbænda. Samkeppnin snerist um að heiðra íslensku sauðkindina sem hefur þurft að þola ótrúleg óveður.  Prjóna átti lopapeysur í óveðursstíl og úr íslenskri ull.

Hér má sjá auglýsingu með nánari upplýsingum um samkeppnina. 

Skilafresturinn var til 1. október síðast liðinn, en í dag verða tilkynnt úrslit og hvaða þrjár peysur hafa unnið til verðlauna. Verðlaunin eru ekki af verri endandum en fyrir 1. sæti er 100.000 kr og flug & gisting fyrir tvo innanlands. 2. sætið fær 70.000 kr og værðarvoð frá Ístex, og 3. sætið fær 30.000 kr og einnig værðarvoð. 

Kl. 14:30 í dag verða svo sýndar allar peysurnar sem sendar voru inn í keppnina við Handprjónasambandið við Skólavörðustíg. Mikið vildi ég að ég kæmist en verð því miður að vinna. 

Ég lét mitt að sjálfsögðu ekki eftir liggja og sendi inn peysu. Peysan fékk vinnuheitið Winter Wonderland þegar ég var að byrja á henni, en breytti því svo í Bylur þegar leið á. Ég hafði séð þessa auglýsingu einhvern tíman í júní og var alveg staðráðin í að senda inn peysu. Það var svo ekki fyrr en seint í september sem að ég rankaði við mér og hóf að prjóna peysuna. Hún varð frekar lítil, eða eins og á 2-3 ára, en hún var ekkert endilega hugsuð sem barnapeysa í byrjun. 

Ég prjónaði peysuna úr einföldum plötulopa og einbandi. 
Mynstrið er gert úr allskonar frostrósum. 

Ég valdi þennan bláa lit því mér fannst hann segja: Íslenskt skammdegi og snjókoma. 


Ég er mjög spennt að sjá hvernig vinningspeysurnar líta út, en eitt er víst að mín peysa er ekki ein af þeim. Peysan mín er ef til vill of krúttleg til þess að flokkast sem óveður ;)

Eigið góða helgi kæru vinir og gleðilegan fyrsta vetrar dag!
- Steinunn Birna - 

sunnudagur, 13. október 2013

Elsku amma Þóra

Ég er svo óendanlega heppin með mínar ömmur, en því miður kvaddi amma Þóra mín nú í sumar, 90 ára að aldri.  Ég ber mikinn söknuð til hennar og trúi varla enn að hún sé ekki lengur hér á meðal okkar. Með tárin í augunum skrifa ég þessa minningu um elsku ömmu og gef henni næstu orð: 



Amma Þóra var örvhent eins og ég. Hún lærði aldrei að prjóna vegna þess að handavinnukennarinn hennar hafði ekki kennsluhæfni til þess að kenna örvhentu barni að prjóna. Í staðinn heklaði amma, og það var ekki lítið. Ömmu var margt til lista lagt og höfðu þær systurnar miklar sköpunargáfur. Það voru heklaðar alls kyns dúllur, dúkar, dúkkuföt, jólaskraut, páskaskraut og allavegana hlutir. Amma mín saumaði líka mjög mikið, allt fram á síðasta dag. Við eigum til ótal stykki heima sem amma hefur saumað í gegnum tíðina, svuntur, handklæði, dúkkuföt, ungbarnasmekki, kjóla og margt fleira. Amma bjó yfir mikilli sköpunargleði og hafði einstaka unun af því að gefa okkur barnabörnunum og barnabarnabörnunum afurðirnar sínar. 


Minn áhugi á prjóni og hekli vaknaði um 18 ára aldur. Þá fyrst prjónaði ég mér eyrnaband úr ljósbláu mohair garni. Mig langaði svo hafa blóm á eyrnabandinu svo ég bað ömmu um að hekla það fyrir mig. Án þess að vita nákvæmlega hvernig blóm ég var að meina heklaði amma nákvæmlega blómið sem mig langaði í. Mér þykir afskaplega vænt um það í dag. 



Það var fyrir örfáum árum síðan, þegar ég var í heimsókn hjá ömmu eitt kvöldið að hún vildi endilega losa sig við eitthvað af gömlum dúllum og dúkum sem hún átti í kassa inni hjá sér. Fyrir mér eru þetta gull og gersemar, sérstaklega afþví þetta er ekki bara eftir ömmu heldur var sumt eftir systur hennar sem allar eru látnar. Einn dúkinn taldi hún meira að segja vera eftir Sigurborgu móður hennar. Hún sagði við mig ,,taktu bara þetta allt saman, það vill þetta enginn". Ég þáði þessa gjöf með miklu þakklæti og lofaði að deila henni með systrum mínum, sem ég og gerði. 



Amma var dugleg að hekla eftir. Hún keypti sér oft dúka og dúll sem hún svo gerði eftir.




Það er auðþekkjanlegt það sem amma hefur heklað, því hún gekk aldrei frá endunum.


Rétt áður en amma lést gaf hún Þórunni Erlu stelpunni minni þrjá smekki sem hún hafði saumað. Ég gaf Henning Darra systursyni mínum einn þeirra (hann fæddist nokkrum vikum eftir andlát ömmu), leyfi Þórunni Erlu að nota einn en sá þriðji og jafnframt sá fallegasti verður vel geymdur og fær ekki að verða notaður, ekki strax að minnsta kosti. 



Nú þegar elsku amma er farin öðlast gjafirnar hennar enn meira gildi. Þetta er ekki eitthvað sem við beint erfðum frá henni, heldur gaf hún sjálf okkur þetta. Mér líður alltaf betur með að vita það að amma vildi gefa okkur þetta.

Núna er eitt hornið í bílskúrnum hjá mömmu og pabba undirtekið af föndurdótinu hennar ömmu, bíður þar eftir því að við skiptum því á milli afkomendanna. Það er hálf súrrealískt að fara í gegnum þetta vitandi það að amma muni ekki klára neitt af þessu og að hún muni ekki gera fleiri jólakarla hangandi á eldhússleif, eins og hún hefur gert í eflaust tuga tali. 

Elsku amma, þakka þér fyrir að hafa kennt okkur þína iðju. Við erum þér ævinlega þakklát fyrir allt. Þú kenndir okkur ekki bara um handíðir, heldur um lífið sjálft. Hversu gott það er.
Takk elsku amma.


Amma Þóra með Þórunni Erlu nýfædda

Prjónað í beinni

Það verður gaman að fylgjast með norska ríkissjónvarpinu NRK föstudaginn 1. nóvember næstkomandi. Þá verður prjónuð peysa í beinni útsetningu. Fylgst verður með verkun ullarinnar allt frá því að hún er rýjuð af kindinni, kembd og svo loks spunnið band. Markmiðið er að bæta tímamet á heimsmælikvarða, en metið er 4 klst og 51 mín. og var það gert í Ástralíu.

Sjónvarpsefni af þessu tagi er nýtt á nálinni hjá NRK. Það hefur verið sýnt beint frá ýmsum atburðum, eins og frá snekkju einni þar sem allan sólarhringinn var sýnt beint frá snekkjunni, þó ekkert væri í raun sérstakt í gangi. Þetta er mótsvar við sjónvarpsefni nútímans þar sem allt snýst um að fanga athygli áhorfandans á örfáum sekúndum og með skírskotun í fastfood/slowfood umræðuna kallast þetta slowTV. 

Hér má sjá link inn á umfjöllun um þetta á heimasíðu NRK

þriðjudagur, 1. október 2013

Tuskuleg

Mér finnst gaman að eiga prjónaða hluti með mismunandi notagildi. Hvort sem það eru púðar, mottur eða jú tuskur. Þegar tuskur eru prjónaðar eða heklaðar er langbest að nota bómullargarn vegna þess að það heldur sér vel og má þvo almennilega í þvottavél. 

Ég ætlaði mér að vera rosalega dugleg að hekla slefsmekki handa Þórunni Erlu þegar hún fæddist og keypti því nokkrar dokkur af bómullargarni í Söstrene Grene. Það varð nú eitthvað lítið úr smekkjagerðinni svo ég henti mér útí  tuskurnar í staðinn. Það er hægt að leika sér svo endalaust að gera tuskur og ég er rétt að byrja! 


Gula, bleika og græna tuskan er prjónuð með garðaprjóni. Byrjaði á að nota gulan og bleikan og gerði langan renning. Tók svo upp lykkjurnar á annarri hliðinni og bætti grænum þar við. Sú bláa er prjónuð með klukkuprjóni.

Hér er ágætis kennslumyndband sem sýnir hvernig klukkuprjón er prjónað, svona fyrir þá sem ekki kunna eða þurfa að rifja upp :)




Tuskur má ekki síður hekla ef vill, smá innblástur:





Happy knitting!
- Steinunn Birna -