Fyrir prjónanördið
Ég er algjört
prjónanörd og tel mig alls ekki vera eina um það. Einhvern veginn kemur það samt
alltaf flestum á óvart, þar sem ég er ung og við erum ekki allt of margar á
mínum aldri sem höfum virkilegan áhuga á hannyrðum yfir höfuð. En ég er stolt
prjónanörd og ætla segja ykkur dálítið frá prjónaskap hér áður fyrr.
Ég
tel það vera mjög fast í flestum okkar að reyna komast að hinu upprunalega,
hvað sem það nú er. Hér er það engin undantekning. Ég hef ofsalega gaman af því
að spjalla við eldri konur um prjónaskap og læt þær kenna mér hitt og þetta.
Spyr þær hvernig þær lærðu að hekla eða prjóna og þar fram eftir götum. Því
vakti það mikinn áhuga minn að skoða svörin frá Þjóðháttadeild
Þjóðminjasafnsins um prjónaskap, frá konum sem eru jafnvel enn eldri en þær sem
ég hef rætt við hingað til og því með eldri hugmyndir um prjónaskap (eitt sinn
var talið að það elsta væri alltaf upprunalegast, það er þó ekki alveg svo
einfalt!). Svörin voru send inn á árunum 1996-7 og voru flest svaranna frá konum.
Það voru bara tveir karlmenn sem sendu inn svör. Þau voru fædd á árunum
1905-1954 og því sumar töluvert eldri en amma mín, sem er elsta konan sem ég
hef rætt um þetta við, en hún er fædd 1923.
Í
svörunum kenndi ýmissa grasa um prjónaskap og margt ofboðslega spennandi. Það
var margt sem vakti sérstakan áhuga minn eins og til dæmis prjónaklukkurnar sem
stelpur og konur gengu í sem undirfatnað (ÞÞ 12344).
Ég myndi alveg vilja prjóna mér eina slíka núna eftir lesturinn. Mér fannst
líka ákaflega merkilegt að lesa um það hvernig ullin var lituð hér áður fyrr,
en þá notaði fólk litarefni úr sínu nánasta umhverfi og því náttúruleg
litarefni (ÞÞ 12268).
Einnig fannst mér mjög skemmtilegt að lesa var um sjölin, því þau eru enn þá í
notkun en samt veit ég sáralítið um þau. Í svörunum hafði fólk þó mismikið að
segja um þau, og það sem kom fram var allt merkilega líkt svo ég tel
heimildirnar vera þó nokkuð öruggar. Hér mun ég því segja frá því sem vakti
minn áhuga við lesturinn og vonandi vekur það þinn áhuga líka, njóttu vel.
Prjónaklukkur
Prjónaklukkur
voru undirfatnaður sem bæði unglingsstelpur og konur klæddust (ÞÞ 12395, ÞÞ 12327,
ÞÞ 12491). Flest nærföt voru
prjónuð úr einbandi og það á líka við um prjónaklukkurnar (ÞÞ 12476). Prjónaklukkurnar eru eins og undirkjóll og voru oftast
prjónaðar með klukkuprjóni. Þaðan kemur einmitt nafnið á flíkinni (ÞÞ 12365). Sumar konurnar kölluðu
þær reyndar millipils og aðrar nærklukkur (ÞÞ 12874, ÞÞ 12722). Klukkurnar voru
nánast alltaf prjónaðar í prjónavél og saumaðar saman á hliðunum, því á þessum
tíma voru engir hringprjónar til, en guði sé lof fyrir þá í dag! (ÞÞ 12444). Klukkurnar gátu verið ofboðslega fallegar, í skemmtilegum litum
og fallegu mynstri neðst. Ekki ber heimildum saman um það hvenær þær hafa helst
verið notaðar og hvenær noktuninni hefur verið hætt en eitt er víst að þær voru
notaðar mest á fyrri hluta 20. aldar, eftir það drógst verulega úr notkuninni
og er nú lítil sem engin (ÞÞ 12513, ÞÞ 12363, ÞÞ 12750, ÞÞ 12874, ÞÞ 12395, ÞÞ 12351 ). Tilkoma betri húsaskjóls
og upphitunar á þeim, og líka betri hlífðarfatnaður eru líklegustu ástæðurnar fyrir því hvers
vegna hætt var að nota prjónaklukkurnar (ÞÞ 12874).
Litun á bandi
Það
er ýmislegt upp á teningnum þegar viðkemur litun á ullarbandi. Þá var nánast
alltaf litað ullarbandið heima fyrir. Misjafnt var hvort bandið var litað með
jurtum eða með aðkeyptum lit (ÞÞ 12272, ÞÞ 12268). Algengir litir til að lita voru blár, grænn
og rauður. Þeir voru stundum lýstir upp með hvítum og þá varð til ljósbleikur
og ljósblár. Þeir litir voru oft notaðir í nærföt (ÞÞ 12722, ÞÞ 12429). Jurtir
sem notaðar voru til að lita með voru til dæmis sortulyng (líklega rauður litur
), beitilyng (líklega gulur litur), hundasúrur (grænn), litunarmosi (dökk brúnn),
blöndustrokkar (fjólublár) og túnsóleyjar (gulur) (ÞÞ 12268, ÞÞ12363).
Munur var á lituðum svörtum lit og sauðsvörtum lit, sá litaði var
notaður í sparisokka en sá sauðsvarti í hversdagssokka (ÞÞ 12722, ÞÞ 12365).
Liturinn var festur með ediki, en edik var líka notað stundum í hárþvott (ÞÞ
12271). Talað var um samkembu þegar fengin voru mismunandi litbrigði úr
sauðalitunum. Aðalsauðalitirnir eru hvítur, svartur, mórauður og grár (ÞÞ
12380). Sumir töldu föt úr lituðu bandi ekki vera eins hlý og úr ólituðu bandi
(ÞÞ 12380). Til að fá yrjótt (mislitað) band var það bundið um hespuna (bandinu
var undið á hesputré svo úr varð hespa) hér og þar, þannig að liturinn náði
ekki á alla staði (ÞÞ 12508).
Sjöl
og hyrnur
Þá ber að nefna
hyrnur og þríhyrnur sem eru nokkurs konar herðasjöl og hafa verið notuð til
hversdagsnota (ÞÞ 12550, ÞÞ 12462). Það
segir sig nokkuð sjálft hvernig þríhyrnur og hyrnur líta út: annað hvort ferningar
eða þríhyrningar. Þær voru flestar prjónaðar úr garðaprjóni og höfðu
útprjónaðan bekk eða litaðan bekk (ÞÞ 13066, ÞÞ 12446).
Bekkur er það kallað þegar nokkrar umferðir eru prjónaðar með öðruvísi mynstri
eða öðrum lit, þýðir í raun bara það sama og rönd. Hyrnurnar eru misjafnar að
lit, yfirleitt í dökkum litum, hvort sem það voru sauðalitirnir eða úr lituðu
bandi (ÞÞ 12396,
). Þríhyrnurnar voru gjarnan með kögri (ÞÞ 12726).
Þær voru hafðar mjög stórar og algengasta stærðin er um 1 1/2 – 2 m að lengd
(ÞÞ 12508, ÞÞ
12491). Þær voru prjónaðar úr einbandi eða öðru fínu bandi með grófum
prjónum (ÞÞ 12567, ÞÞ 12363)
Langsjöl
komu seinna til sögunnar en hyrnurnar. Þau þóttu mun fínni eða sparilegri en
hyrnurnar og voru oft notuð yfir peysufötin eða upphlutinn (ÞÞ 12527, ÞÞ 12518, ÞÞ 12377). Þau voru
renningar, líkt og langir og breiðir treflar, einnig prjónuð úr einbandi. Þau
voru prjónuð með útprjóni, en það er mismunandi gataprjón, og var mikið vandað
til þeirra (ÞÞ 12513). Dæmi um skemmtileg útprjón
sem nefnd voru í þessu 12861,
ÞÞ 12327, ÞÞ 12726, ÞÞ 12722, ÞÞ 12567). Langsjöl voru oftast
röndótt úr sauðalitunum, og yfirleitt bandið unnið heima við (ÞÞ 12365).
sambandi er perluprjón, sílaprjón, hörpudiskaprjón,
fílabeinsprjón, geislaprjón, krónuprjón, knúppaprjón og svona mætti endalaust
telja (ÞÞ
Það
litaðist mjög af frásögnum þessara kvenna að það væru aðeins eldri konur sem
klæddust sjölum og hyrnum (ÞÞ 12487, ÞÞ 12372, ÞÞ
12395). Þær voru í grunnin til nýttar til skjóls við kulda og vindi en
misjafnt hvernig konurnar klæddust þeim. Ýmist voru þær bara lagðar yfir
herðarnar eða lagðar yfir herðar og hvössu hornin krossuð yfir brjóstin (þríhyrnurnar)
og bundin aftur fyrir bak (ÞÞ 12351, ÞÞ 12861), þess vegna voru þær hafðar frekar
stórar. Sumar settu hyrnurnar yfir höfuðið og ýmist bundið við hnakkann eða
vafið um hálsinn. Konur klæddust hyrnum inni sem úti, heima við sem og á
ferðalögum (ÞÞ 12491). Eldri konur voru þó
ekki þær einu sem nýttu sér hyrnurnar. Því stundum voru þær einnig notaðar til
að verja smábörn fyrir kulda (ÞÞ 13032). Þegar
börn klæddust hyrnum var yfirleitt talað
um skakka en ekki hyrnur (ÞÞ 12861, ÞÞ 12421).
Kanntu
að pleta þig? Margar konurnar könnuðust við það. Þá var plet, sem er nokkurns
konar ílangur renningur sirka 30-35 sm breiður prjónaður. Hann var lagður yfir
mittið að framan, látinn krossa í bakið og fer yfir axlirnar og endunum stungið
undir að framan. Það var kallað að pleta sig. Þetta var notað sem peysur fyrir
börn og fullorðnar konur (ÞÞ 1391, ÞÞ 12567).
Í
dag hafa þríhyrnur verið endurvaktar, eftir nokkurt hlé tel ég vera.
Uppskriftir af þeim sjást í nýlegum prjónabókum og ýmsum bloggum. Þær eru í
allavegana litum og ofboðslega fallegar. Nú eru möguleikarnir meiri til að gera
hin fallegustu sjöl þar sem úrval lita, banda og prjóna er allt annað í dag en
um kringum 1900. Sjálf hef ég gert mér tvær þríhyrnur. En þríhyrnurnar eru í
dag notaðar á annan hátt en áður var. Nú eru þær helst notaðar sem hálsklútur
eða trefill en ekki sem peysu eða höfuðfat. Ég hef sjálf orðið minna vör við að
langsjölin séu notuð dagsdaglega núorðið, en þau eru oft tekin upp við hátíðleg
tilefni núna og gjarnan með þjóðbúningnum. Ég tel það líka vera frekar
sjaldgæft að börn séu vafinn um hyrnur
þó svo að ég geti ekkert alhæft um það.
Í svörunum var svo
margt áhugavert sem hægt væri að gera langa ræðu um, en ég læt þetta duga í bili.
Hver veit nema ég muni gramsa í svörunum einn daginn og segja ykkur allt um vettlinga,
sokka og allavega aðferðir sem þekktust hér áður fyrr.
Heimildaskrá:
Óprentuð gögn á
Þjóðháttadeild Þjóðminjasafnsins:
ÞÞ 12550 kvk f. 1909
Kópavogi
ÞÞ 12462 kvk f. 1954
Seyðisfirði
ÞÞ 12527 kvk f. 1925 Flúðum, Hrunamannahreppi
ÞÞ 12518 kvk f. 1938
Kjós
ÞÞ 12351 kvk f. 1916
Kópavogi
ÞÞ 12861 kvk f. 1920
Búðardal
ÞÞ 12487 kvk f. 1920
Reykjavík
ÞÞ 12377 kvk f. 1938 Egilsstöðum
ÞÞ 12327 kvk f. 1930 Fellahreppi,
N-Múl.
ÞÞ 12396 kvk f. 1911
Mývatnssveit
ÞÞ 12508 kvk f. 1928
Akranesi
ÞÞ 13066 kvk f. 1905
Sandvíkurhrepp
ÞÞ 12726 kvk f. 1923 Reykjavík
ÞÞ 12421 kvk f. 1912
Vesturbyggð, V-Barð.
ÞÞ 12372 kvk f. 1913
Búðarhreppi, S-Múl.
ÞÞ 12446 nafnlaust svar
ÞÞ 12513 kvk f. 1906 Ísafirði
ÞÞ 13032 kvk f. 1930 Bárðardal,
S-Þingeyjarsýslu
ÞÞ 12722 kvk f. 1908 Grundarfirði
ÞÞ 12268 kvk f. 1932 Reykjavík
ÞÞ 12491 kvk f. 1922
Grýtubakkahrepp, S-Þing.
ÞÞ 1391 kvk f. 1906 Hveragerði
ÞÞ 12567 kvk f. 1912 Borgarnesi
ÞÞ 12344 kvk f. 1932 Akureyri
ÞÞ 12365 kvk f. 1920 Reykjavík
ÞÞ 12363 kvk f. 1916 Grindavík
ÞÞ 12395 kvk f. 1916
Reykjavík
ÞÞ 12874 kvk f. 1931 Egilsstöðum
ÞÞ 12476 kvk f. 1929 Skagafirði
ÞÞ 12444 kvk f. 1909, Reykjavík
ÞÞ 12750 kvk f. 1923 Reykjavík
Engin ummæli:
Skrifa ummæli