sunnudagur, 13. október 2013

Elsku amma Þóra

Ég er svo óendanlega heppin með mínar ömmur, en því miður kvaddi amma Þóra mín nú í sumar, 90 ára að aldri.  Ég ber mikinn söknuð til hennar og trúi varla enn að hún sé ekki lengur hér á meðal okkar. Með tárin í augunum skrifa ég þessa minningu um elsku ömmu og gef henni næstu orð: 



Amma Þóra var örvhent eins og ég. Hún lærði aldrei að prjóna vegna þess að handavinnukennarinn hennar hafði ekki kennsluhæfni til þess að kenna örvhentu barni að prjóna. Í staðinn heklaði amma, og það var ekki lítið. Ömmu var margt til lista lagt og höfðu þær systurnar miklar sköpunargáfur. Það voru heklaðar alls kyns dúllur, dúkar, dúkkuföt, jólaskraut, páskaskraut og allavegana hlutir. Amma mín saumaði líka mjög mikið, allt fram á síðasta dag. Við eigum til ótal stykki heima sem amma hefur saumað í gegnum tíðina, svuntur, handklæði, dúkkuföt, ungbarnasmekki, kjóla og margt fleira. Amma bjó yfir mikilli sköpunargleði og hafði einstaka unun af því að gefa okkur barnabörnunum og barnabarnabörnunum afurðirnar sínar. 


Minn áhugi á prjóni og hekli vaknaði um 18 ára aldur. Þá fyrst prjónaði ég mér eyrnaband úr ljósbláu mohair garni. Mig langaði svo hafa blóm á eyrnabandinu svo ég bað ömmu um að hekla það fyrir mig. Án þess að vita nákvæmlega hvernig blóm ég var að meina heklaði amma nákvæmlega blómið sem mig langaði í. Mér þykir afskaplega vænt um það í dag. 



Það var fyrir örfáum árum síðan, þegar ég var í heimsókn hjá ömmu eitt kvöldið að hún vildi endilega losa sig við eitthvað af gömlum dúllum og dúkum sem hún átti í kassa inni hjá sér. Fyrir mér eru þetta gull og gersemar, sérstaklega afþví þetta er ekki bara eftir ömmu heldur var sumt eftir systur hennar sem allar eru látnar. Einn dúkinn taldi hún meira að segja vera eftir Sigurborgu móður hennar. Hún sagði við mig ,,taktu bara þetta allt saman, það vill þetta enginn". Ég þáði þessa gjöf með miklu þakklæti og lofaði að deila henni með systrum mínum, sem ég og gerði. 



Amma var dugleg að hekla eftir. Hún keypti sér oft dúka og dúll sem hún svo gerði eftir.




Það er auðþekkjanlegt það sem amma hefur heklað, því hún gekk aldrei frá endunum.


Rétt áður en amma lést gaf hún Þórunni Erlu stelpunni minni þrjá smekki sem hún hafði saumað. Ég gaf Henning Darra systursyni mínum einn þeirra (hann fæddist nokkrum vikum eftir andlát ömmu), leyfi Þórunni Erlu að nota einn en sá þriðji og jafnframt sá fallegasti verður vel geymdur og fær ekki að verða notaður, ekki strax að minnsta kosti. 



Nú þegar elsku amma er farin öðlast gjafirnar hennar enn meira gildi. Þetta er ekki eitthvað sem við beint erfðum frá henni, heldur gaf hún sjálf okkur þetta. Mér líður alltaf betur með að vita það að amma vildi gefa okkur þetta.

Núna er eitt hornið í bílskúrnum hjá mömmu og pabba undirtekið af föndurdótinu hennar ömmu, bíður þar eftir því að við skiptum því á milli afkomendanna. Það er hálf súrrealískt að fara í gegnum þetta vitandi það að amma muni ekki klára neitt af þessu og að hún muni ekki gera fleiri jólakarla hangandi á eldhússleif, eins og hún hefur gert í eflaust tuga tali. 

Elsku amma, þakka þér fyrir að hafa kennt okkur þína iðju. Við erum þér ævinlega þakklát fyrir allt. Þú kenndir okkur ekki bara um handíðir, heldur um lífið sjálft. Hversu gott það er.
Takk elsku amma.


Amma Þóra með Þórunni Erlu nýfædda

2 ummæli:

  1. En fallega skrifað. Greinilega einstaklega einstök og yndisleg manneskja sem þið hafið átt að;) og eigið fallegar minningar um. kv. Auður Rún

    SvaraEyða
  2. Já hún var sko einstök og yndisleg hún amma Þóra :)

    SvaraEyða