fimmtudagur, 28. nóvember 2013

Henning Darri gullmoli

Óvenju dugleg að blogga núna.. er sko að skrifa ritgerð og læra undir próf!

En hér er einn ungur herramaður sem ég elska endalaust mikið! Henning Darri systursonur minn og guðsonur. 


Hann fékk þessa dýrindis peysu frá frænku sinni núna um daginn. Uppskriftina af henni má finna í Stóru Prjónabókinni. Ég prjónaði hana úr kambgarni, en notaði svo ýmsa afganga í berustykkið. Þetta er ofur einföld peysa sem ALLIR geta prjónað! 

Ég fór reyndar ekki alveg 100% eftir uppskriftinni. Það er svo kölluð laska úrtaka á berustykkinu, þar átti að gera lykkjurnar á milli alltaf sléttar en ég gerði þær með garðaprjóni eins og öll peysan er prjónuð. 


Fékk þessar fínu trétölur í Freistingasjoppunni



En ég kann líka að hekla. Heklaði þessa krúttlegu Converse fyrir Henning Darra líka. Hér er uppskrift af skónum.

Ætli ég verði ekki að fara læra núna...
- Steinunn Birna -

þriðjudagur, 26. nóvember 2013

Jólaprjón

Eru ekki allir að fara prjóna jólapeysu fyrir þessi jólin? 

Mig langar en veit ekki með tímann.. Hér er smá Pinspiration frá elsku pinterest.





Elskum hreindýr!


Sumt er ætlað fyrir krosssaum, en það má sko alveg nota það sem prjónamynstur líka :)



- Steinunn Birna - 


Afmælisgjöfin frá langömmu

Betra er seint en aldrei! 

Hún Þórunn Erla mín varð 1 árs fyrir rúmum mánuði síðan. Hún er svo lánsöm að eiga mikla prjóna-langömmu sem býr á Eyrarbakka. Hún færir öllum ömmu- og langömmubörnunum sínum prjónaðar gjafir sem eru svo yndilega fallegar. Þórunn Erla á nú orðið allnokkrar flíkurnar eftir hana, vettlinga, húfur og peysur. Þær hafa sko komið sér vel, sérstaklega hjá dagmömmunni eða þegar við förum út að leika :)

Núna í eins árs afmælisgjöf fékk Þórunn mín þetta yndislega sett af peysu lambhúshettu og vettlingum. 


Mig minnir að mynstið í peysunni sé fengið uppúr einhverju lopablaðinu frá Ístex, en þetta er prjónað úr Smartgarni. Vettlingarnir eru sérstaklega góðir, þar sem stroffið er ekki of þröngt en nær vel upp svo þeir eru bæði mjög hlýir og eru ekki að detta af í tíma og ótíma. 


Aldeilis lukkuleg í afmælisgjöfinni frá langömmu á Eyrarbakka. 


Já, svo varð ég að fara út fyrst við vorum nú að klæða okkur í útifötin. Annað er kom ekki til greina! 

- Steinunn Birna - 


þriðjudagur, 19. nóvember 2013

Frú Föndra

Ég reyni alltaf vera rosalega skipulögð. Legg áherslu á reyni. Það tekst ekki mjög oft hjá mér en þetta kemur vonandi með aldrinum ;) Eitt tilraunaverkefnið í skipulagningu hjá mér er Frú Föndra. Það er sæt bleik mappa sem ég reyni að setja inn allar þær uppskriftir eða mynstur sem ég prenta út eða teikna upp. Hef náð að safna í smá bunka :)





Svo náði ég mér í bókina Prjónað úr íslenskri ull á bókasafni síðasta vetur og teiknaði upp uppáhalds mynstrin mín til að eiga 

sunnudagur, 17. nóvember 2013

Afgangapeysan mín góða

Komið sæl kæru prjónvinir! 

Einn daginn síðastliðið vor fékk ég algjörlega nóg af öllum spottunum og endunum sem ég átti svo allt of mikið af. Ég (og reyndar mamma líka) átti fullan höldupoka af léttlopa afgöngum. Mig langaði að sjálfsögðu að gera eitthvað skemmtilegt úr þeim og datt í hug að hekla mér peysu. 



Úr varð að ég byrjaði á því að hekla heilmargar loftlykkjur (taldi ekki hvað margar), heklaði svo stuðla fram og til baka þar til spottinn kláraðist. Þá tók næsti litur við og svo koll af kolli. Sumar dokkurnar voru þó full stórar svo ég klippti á spottann stundum án þess að klára litinn, en tók þá þráðinn upp seinna meir. 



Þegar báðar ermar og búkur voru til sameinaði ég allt saman, heklaði fram og til baka berustykkið og tók úr í hverri umferð með því að hoppa yfir eina lykkju. 




Þegar leið á peysunna fór ég að verða upppiskroppa með liti, svo ég tók smá af hvíta litnum og litaði hann. Fékk neongrænan, ljósbláan og skærgulan þar. 




Þar sem búkurinn var heklaður fram og til baka, fannst mér réttast að gera það líka með ermarnar, annars kæmi önnur áferð á þær ef ég hefði heklað þær í hring. 



Lauk svo peysunni með bleikalitnum sem setti punktinn yfir I-ið :)


Einfaldara gæti þetta ekki verið!


Kveðja
- Steinunn Birna - 

föstudagur, 1. nóvember 2013

Óveðurspeysan - Úrslit

Já nú má fara inn á heimasíðu Ístex og skoða þær peysur sem sendar voru inn í hönnunarsamkeppnina Óveðurspeysan. Margar skemmtilegar peysur af öllum stærðum og gerðum hafa verið prjónaðar fyrir þessa keppni en alveg greinilegt að margir prjónarar hafa verið með svipaðar hugmyndir, sem sagt snjókomu og sauðfé (þar á meðal ég!) :) 


Hér eru peysurnar þrjár sem unnu til verðlauna, frá vinstri: 3. sæti: Vedda. 2. sæti: 20. apríl. 1. sæti Kafla. Eins og sjá má hefur verið lögð gífurleg vinna í þessar peysur og óska ég vinningshöfum til hamingju með árangurinn. 

Hér eru svo nokkrar skemmtilegar peysur frá sýningunni sem haldin var laugardaginn síðast liðinn:


Mjög skemmtileg hönnun, gæti verið seprahestamynstur ef hún væri svört. Takið eftir hvernig ermarnar verða að vettlingum, snjallt.


Öðruvísi en mjög skemmtileg hönnun. 


Varð að hafa þessa með. Margt í gangi og brjálaðir litir! 


Einföld og smart hönnun.


Ein af fjölmörgu kindapeysunum, finnst þessi mjög flott.


Æðisleg barnapeysa. 

Hvet ykkur til að skoða hinar fjölmörgu og fallegu peysur inni á heimasíðu Ístex.

Svo vil ég minna á að kl 20:05 að íslenskum tíma í kvöld hefst bein útsending frá NRK2 þar sem prjónað verður í beinni, og reynt að slá heimsmet. Hér má sjá fyrri umfjöllun mína um þetta. Dagskrárliðurinn heitir Nasjonal strikkekveld, og svo í framhaldi af því Nasjonal strikkenat. 

Eigið frábæra helgi kæru vinir!
- Steinunn Birna -