þriðjudagur, 23. júní 2015

Peysan mín Blíð

Ég er með margt á prjónunum þessa dagana, aðallega að skrifa uppskriftir og þýða á dönsku fyrir íslenska prjónadaga í Kaupmannahöfn næstkomandi september. Ótrúlega spennandi!

Þessi peysa er ein af mörgum sem eru nú á tölvuskjánum og uppskriftin verður tilbúin fljótlega. 

Peysan mín Blíð
 ofur einföld og fljótleg í framkvæmd prjónuð úr einföldum plötulopa. 




Ást & kærleikur

Steinunn Birna


fimmtudagur, 19. mars 2015

Haustboði - Uppskrift!

Já góðir hlutir gerast hægt.. Nú er loksins tilbúin og vonandi algjörlega villulaus uppskrift af peysunni Haustboði. 



Útfærslan var ekki auðveld, þar sem fyrstu umferðirnar eftir sameiningu erma og bols eru prjónaðar með gataprjóni á bol en slétt á ermum. En eftir miklar vangaveltur, fram og til baka hef ég ákveðið að gefa út uppskriftina, í því formi sem hún er. Ég vil því láta vita af því að það er kannski flókið að lesa úr þessu, en enginn vandi að prjóna ;) 

Peysan fæst í fjórum stærðum 68-74 / 80-86 / 92-98 / 100-104

Hægt er að kaupa uppskriftina fyrir litlar 1000 kr á Ravelry (7.50 USD) eða með því að hafa sambandi við mig á netfangið steinunnbirna@gmail.com 

Kærar þakkir til allra þeirra sem hjálpuðu mér við koma þessu í verk, og sérstakar þakkir til prufuprjónaranna minna þeim Brynju Ingadóttur, Jórunni Oddsdóttur og henni Gústu :) 

Takk! 

Ást og friður
Steinunn Birna

föstudagur, 20. febrúar 2015

Ryðrauð - endurnýtt munstur úr Sjónabókinni

Gleður mig að vekja athygli á viðtali við mig hjá Kristínu í Fjárhúsinu

Ég vildi endilega láta fylgja með uppskrift af peysu sem ég hef nýlega lokið við. Hana gerði ég úr einföldum plötulopa á prjóna nr 4. 

Notaði þennan yndislega lit sem heitir ryðrauð samkemba (1426)


Munstrið er endurnýtt úr okkar yndislegu Sjónabók, en þar eru ótal mörg munstur sem voru nýtt til ýmissa hannyrða áður fyrr. Um ræðir íslensk munstur frá 17., 18., og 19. öld sem varðveitt eru á Þjóðminjasafni Íslands og Þjóðminjasafni Dana saman komin í  um 700 blaðsíðna bók. 

Allt efni bókarinnar er til frjálsrar noktunar í hönnun, handverki og kennslu. 


Yndislega Kristín mín Thorlacius sat fyrir á myndunum sem teknar voru við Eyrarbakkafjöru.


Uppskriftin birtist á netsíðu Fjárhússins  



Njótið vel! 



miðvikudagur, 28. janúar 2015

Akvamarín

Einkadóttirin eignaðist nýjan kjól nú á dögunum..

Kjóllinn fékk heitið Akvamarín (e. Aquamarine), líkt og fallegi steinninn. 



Ég notaði yndislega mjúkt garn, Royal Alpakka frá Dale Garn, liturinn heitir Mint nr 5771. Í kjólinn þurfti ég 3 dokkur. 







Fékk töluna í Freistingasjoppunni á Selfossi. Hægt að panta hjá þeim í gegnum Facebook síðuna þeirra. 




Dóttir mín er í st 98 og hann passar bara nokkuð vel á hana. Ég notaði tvenns konar gatamunstur frá Prjónakistunni fékk leyfi til birtingar á þeim. 

Setti inn uppskrift í stærð 98 inn á Ravelry síðuna mína og þar er hægt að sækja hana frítt :)

Verði ykkur að góðu! 

Steinunn Birna


fimmtudagur, 18. desember 2014

Þýðing á uppskrift

Birti umfjöllun og myndir af yndislegu peysunni minni hér fyrr í vikunni. 

Hef verið í peysunni minni nánast allan desember og hafði lofað samstarfskonu minni að þýða uppskriftina yfir á íslensku svo hún gæti gert sér svona kósípeysu líka ;) 

Nú hef ég staðið við stóru orðin! Hér kemur þýðingin. Upprunalega uppskriftin er frá breska blogginu Without Seams

Ég notaði einfaldan plötulopa og mohair, nál nr 6,5 og gerði minnstu stærðina. 


Skammstafanir:
LL = loftlykkja
HST = hálfstuðull
ST = stuðull
L = lykkja (stitch)
LLgat = Loftlykkjugat


Peysan er hekluð ofan frá og niður. Fyrst er heklað axlastykki, svo eru lykkjur fyrir ermar teknar frá og haldið áfram að hekla niður bol. Ermar eru heklaðar fram og til baka og saumaðar saman að endingu.

Gerið 47 (50, 62, 68) loftlykkjur

Axlarstykki:
Umferð 1:  Gerið HST í 3ju L frá heklunál, hoppa yfir 1 L, *HST í næstu L, 2 LL, HST í næstu L, hoppa yfir 1 L, endurtakið frá * að síðustu L, 2 HST í síðustu L. =>  60 (64, 80, 88) L.

Umferð 2: 3 LL, 2 ST í fyrstu L, hoppa yfir 1 L, *(2 ST, 2 LL, 2 ST) í hvert LLgat, hoppa yfir 2 L. Endurtakið að síðasta LLgati, (2 ST, 2 LL, 2 ST) í síðasta LLgat, hoppa yfir 1 L, 1 ST í síðustu L , 2 ST í síðasta LLgat (e. top of turning chain). => 90 (96, 120, 132) L.

Umferð 3: 3 LL, 2 ST í fyrstu L, 1 ST í næstu L, hopps yfir 2 L, *1 ST í næstu L, (2 ST, 2 LL, 2 ST) í næsta LLgat, 1 ST í næstu L, hoppa yfir 2 L, endurtakið frá * að síðustu L, 2 ST í næstu L, 2 ST í síðasta LLgat. => 120 (128, 160, 176) L.

Umferð 4: 3 LL, 2 ST í fyrstu L,  1 ST í næstu L, hoppa yfir 2 L, *1 ST í næstu 2 L, (2 ST, 2 LL, 2 ST) í LLgat, 1 ST í næstu 2 L, hoppa yfir 2 L, endurtakið frá *þar til 2 L eru eftir, 1 ST í næstu L, 2 ST í næstu L, 2 ST í síðasta LLgat. => 150 (160, 200, 220) L.

Umferð 5: 3 LL, 1 ST í fyrstu L, 1 ST í næstu 3 L, hoppa yfir 2 L, * 1 ST í næstu 3 L, (1 ST, 2 LL, 1 ST) í LLgat, 1 ST í næstu 3 L, hoppa yfir 2 L, endurtakið frá * þar til 3 L eru eftir, 1 ST í næstu 3 L, 2 ST í síðasta LLgat. => 150(160, 200, 220) L.

5. umferð er endurtekin þar til axlarstykki hefur náð ákjósanlegri stærð. Hægt er að máta við sig til þess að átta sig á stærðinni.

Að skipta axlarstykki upp í ermar og bol:
Setjið 1. merki eftir 20 (25, 30, 35) L, 2. merki eftir 50 (55, 70, 75) L ,3. merki eftir 100 (105 , 130, 145) L og 4. merki eftir 130 (135, 170, 185).

Þá er búið að skipta axlarstykki upp í fyrra framstykki, fyrri ermi, bak, seinni ermi og seinna framstykki.

Gerið loftlykkur við handveg:
Með nýjum spotta af bandinu sem er notað, gerið keðjulykkju ofan í lykkju við 1. lykkjumerki, 10 LL, sameinið með keðjulykkju við 2. lykkjumerki. Slítið frá og gerið keðjulykkju við 3. lykkjumerki, 10 LL, sameinið með keðjulykkju við 4. lykkjumerki. Slítið frá bandið.

Loftlykkjurnar 10 samanstanda af einni endurtekningu af munstri við handveg.  

Bolur:
Haldið áfram með sama band og áður. Endurtakið umferð 5: Fyrra framstykki,  sleppið fyrri ermi og heklið munstrið í 10 LL við handveg (líkt og hver LL væri L frá umferðinni á undan), heklið bak, sleppið seinni ermi og heklið munstrið í 10 LL við handveg (líkt og hver LL væri L úr umferðinni á undan) og heklið seinna framstykki.

Endurtakið munstur með því að hekla fram og tilbaka þar til ákjósanleg lengd á bol hefur náðst.

ATH! Hér gerði ég breytingu:
Heklaði 3 umferðir af 5. umferð. Næsta umferð varð svona:

Umferð 5: 3 LL, 1 ST í fyrstu L, 1 ST í næstu 3 L, hoppa yfir 2 L, * 1 ST í næstu 3 L, (2 ST, 2 LL, 2 ST) í LLgat, 1 ST í næstu 3 L, hoppa yfir 2 L, endurtakið frá * þar til 3 L eru eftir, 1 ST í næstu 3 L, 2 ST í síðasta LLgat. (Afsakið, taldi ekki hvað ég endaði með margar lykkjur)

Endurtók svo þessa umferð þar eftir:
3 LL, 1 ST í fyrstu L, 1 ST í næstu 3 L, hoppa yfir 2 L, * 1 ST í næstu 4 L, (1 ST, 2 LL, 1 ST) í LLgat, 1 ST í næstu 4 L, hoppa yfir 2 L, endurtakið frá * þar til 3 L eru eftir, 1 ST í næstu 3 L, 2 ST í síðasta LLgat.

Semsagt jók um 2 ST í hverri endurtekningu en lét jaðrana halda sér. Það má auðvitað gera aukninguna þar líka, bara smekksatriði.

Ermar:
Setjið nálina niður í 7. (6., 7., 6.) L í neðri hluta ermanna, 3 LL (gildir sem 1 ST) og heklið munstur úr 5. umferð gegnum ermi. Í lok umferðar, sameinið með keðjulykkju og snúið við. Endurtakið þar til ermar hafa náð ákjósanlegri lengd.

ATH!
Mér fannst þetta frekar torskiljanlegt. En passaði mig á byrja bara við miðju á neðri hluta hringsins og hekla svo í þá átt sem myndi passa við axlarstykki, s.s. hvort umferðin í axlarstykkinu sneri á röngu eða réttu, svo að áferðin yrði áfram eins.

Breyting –> Ég heklaði svona þar til ég var búin með 14 umferðir. Þá fækkaði ég um 1 ST í lok hverrar umferðar þar til ég var búin fækka um 8 L. Heklaði svo þar til ermin var orðin nægilega löng eftir það.
Það kemur hvergi fram í ensku útgáfunni að það eigi að sauma saman ermarnar en ég býst fastlega við því að það þurfi að gera fyrst þær eiga vera heklaðar fram og til baka.

Heklaður kantur: (ég sleppti honum)
Byrjið neðst við fyrra framstykki og gerið 2 fastalykkju í hverja umferð meðfram kantinum, 1 ST í hverja L við hálsmál (3 L í hornin) og 2 fastalykkjur í hverja umferð niður seinna framstykki. Endurtakið að vild og bætið við hnappagötum ef vill (2-3 LL)
Gangið frá endum og þvoið varlega í höndum. 


Njótið vel! 

Steinunn Birna

sunnudagur, 14. desember 2014

Hlý og notaleg peysa

Nú í kuldanum veitir ekki af því að eiga eina unaðslega notalega og hlýja peysu. Mig vantaði einmitt eina slíka núna fyrir veturinn og leitaði eftir góðum hugmyndum á Pinterest. Þar fann ég eina sæta uppskrift sem er hægt að sækja ókeypis á Ravelry.  


Ég gjörsamlega elska þessa peysu.. Heklaði hana með nál nr 6,5 og notaði einfaldan plötulopa og mohair saman. Yndislega mjúk og hlý..


Ég gerði smávægilegar breytingar á upprunalegu uppskriftinni: 

Þegar komið er að því að hekla bolinn (peysan er hekluð ofan frá og niður) gerði ég útaukningu eftir 3 umferðir. Í staðinn fyrir 4 st bætti ég við þannig það væru alltaf gerðir 5. 



Breytti líka ermunum, þær áttu að vera heklaðar beinar alla leið niður en ég ákvað að það væri flottara að hafa smá þrengingu neðst. Eftir 14 umferðir eins og uppskriftin segir fækkaði ég um 1 stuðull í hverri umferð næstu 8 umferðir. 




Þessi peysa er mjög fljótgerð og skemmtileg í framkvæmd,  hér er smá umfjöllun um hana á Ravelry síðunni minni :) 


Eigið yndislega daga yfir hátíðarnar! 

Steinunn Birna

þriðjudagur, 2. desember 2014

Sjálfboðaliðar óskast!

Komið sæl 

Nú í haust prjónaði ég þessa yndislegu peysu á yndislegu dóttur mína. 

Ég er gjörsamlega ástfangin af litnum sem ég notaði en það er léttlopi nr. 0086 frá Ístex og heitir því skemmtilega nafni ljósljósmórauður

Uppskriftin mun koma í sölu von bráðar og leita ég því eftir áhugasömum og fljótprjónandi sjálfboðaliðum til villuprófa uppskriftina fyrir mig. Þeir myndu fá uppskriftina að sjálfsögðu fría að launum :)

Einnig leita ég að tillögum að nafni fyrir peysuna :) 

Áhugasamir sendið mér póst á steinunnbirna@gmail.com. 


Hér eru myndir af gullinu mínu í peysunni sem teknar voru í Reykjaréttum síðastliðinn september: 




Ástar þakkir!

Steinunn Birna