Nú í sumar var efnt til hönnunarsamkeppni á vegum ,,Gengið til fjár" í samvinnu við Ístex og Landssamtök sauðfjárbænda. Samkeppnin snerist um að heiðra íslensku sauðkindina sem hefur þurft að þola ótrúleg óveður. Prjóna átti lopapeysur í óveðursstíl og úr íslenskri ull.
Hér má sjá auglýsingu með nánari upplýsingum um samkeppnina.
Skilafresturinn var til 1. október síðast liðinn, en í dag verða tilkynnt úrslit og hvaða þrjár peysur hafa unnið til verðlauna. Verðlaunin eru ekki af verri endandum en fyrir 1. sæti er 100.000 kr og flug & gisting fyrir tvo innanlands. 2. sætið fær 70.000 kr og værðarvoð frá Ístex, og 3. sætið fær 30.000 kr og einnig værðarvoð.
Kl. 14:30 í dag verða svo sýndar allar peysurnar sem sendar voru inn í keppnina við Handprjónasambandið við Skólavörðustíg. Mikið vildi ég að ég kæmist en verð því miður að vinna.
Ég lét mitt að sjálfsögðu ekki eftir liggja og sendi inn peysu. Peysan fékk vinnuheitið Winter Wonderland þegar ég var að byrja á henni, en breytti því svo í Bylur þegar leið á. Ég hafði séð þessa auglýsingu einhvern tíman í júní og var alveg staðráðin í að senda inn peysu. Það var svo ekki fyrr en seint í september sem að ég rankaði við mér og hóf að prjóna peysuna. Hún varð frekar lítil, eða eins og á 2-3 ára, en hún var ekkert endilega hugsuð sem barnapeysa í byrjun.
Ég prjónaði peysuna úr einföldum plötulopa og einbandi.
Mynstrið er gert úr allskonar frostrósum.
Ég valdi þennan bláa lit því mér fannst hann segja: Íslenskt skammdegi og snjókoma.
Ég er mjög spennt að sjá hvernig vinningspeysurnar líta út, en eitt er víst að mín peysa er ekki ein af þeim. Peysan mín er ef til vill of krúttleg til þess að flokkast sem óveður ;)
Eigið góða helgi kæru vinir og gleðilegan fyrsta vetrar dag!
- Steinunn Birna -